Írska sjálfstæðisstríðið
Írska sjálfstæðisstríðið | |||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Sveit úr þriðja stórfylki írska lýðveldishersins í Tipperary á tíma stríðsins. | |||||||||
| |||||||||
Stríðsaðilar | |||||||||
Írska lýðveldið | Bretland | ||||||||
Leiðtogar | |||||||||
Hernaðarleiðtogar: Michael Collins Richard Mulcahy Cathal Brugha Stjórnmálaleiðtogar: Éamon de Valera Arthur Griffith |
Hernaðarleiðtogar: Frederick Shaw Nevil Macready Henry Hugh Tudor Stjórnmálaleiðtogar: David Lloyd George French lávarður FitzAlan lávarður Ian Macpherson Hamar Greenwood | ||||||||
Fjöldi hermanna | |||||||||
Írski lýðveldisherinn ~15.000 Írski borgaraherinn ~250 (til vara) |
Breski herinn ~20.000 Konunglegar írskar lögreglusveitir 9.700 - Black and Tans 7.000 - Varadeild 1.400 Lögreglusérsveitir Ulster 4.000 | ||||||||
Mannfall og tjón | |||||||||
Um 550 látnir[1] |
714 látnir, þar af: 410 írskir lögreglumenn 261 breskir hermenn 43 sérsveitaliðar frá Ulster[2] | ||||||||
Um 750 óbreyttir borgarar látnir[3] Alls látnir: Um 2.000 |
Írska sjálfstæðisstríðið var stríð sem skæruliðar úr írska lýðveldishernum háðu gegn breskum yfirráðum á Írlandi á árunum 1919 til 1921. Stríðinu lauk með því að Írar undirrituðu ensk-írska sáttmálann, sem stofnsetti írska fríríkið. Óánægja róttækustu írsku sjálfstæðissinnanna með samninginn leiddi til írsku borgarastyrjaldarinnar í kjölfar sjálfstæðisstríðsins.
Aðdragandi
Írland hafði í margar aldir verið bresk hjálenda sem stýrt var frá London með hervaldi gegn vilja íbúanna. Allt fram á byrjun 19. aldar hafði harðræði breskra stjórnvalda verið slíkt að írsk tunga var bönnuð og írskir eyjarskeggjar höfðu engin félagsleg eða lýðræðisleg réttindi. Í byrjun 19. aldar voru umbætur gerðar til að heimila Írum að ganga í skóla, gegna opinberu embætti og sitja á breska þinginu. Undir lok aldarinnar og í byrjun 20. aldar höfðu félög verið stofnuð til að varðveita írska tungu.
Frá níunda áratugi 19. aldar höfðu írskir þjóðernissinnar krafist heimastjórnar fyrir Írland sem átti að fela í sér talsvert sjálfræði gagnvart breskum yfirvöldum. Á þessum tíma voru það aðallega fámennar hreyfingar á borð við Sinn Féin undir stjórn Arthurs Griffith og Írska lýðveldisbræðralagið sem kröfðust algers sjálfstæðis undan Bretlandi. Fjölmennari hreyfingarnar vildu beita lýðræðislegum aðferðum til að færa Írlandi aukið sjálfstæði innan breska konungssambandsins.
Eftir erfiðar viðræður samþykkti neðri málstofa breska þingsins árið 1912 lagafrumvarp um írska heimastjórn en efri málstofan frestaði í kjölfarið meðferð málsins um tvö ár. Þetta leiddi til stofnunar hernaðarsamtaka sambandssinna í Norður-Írlandi sem kölluðu sig Ulster-sjálfboðaliðana og hugðust viðhalda sambandi Írlands við bresku krúnuna. Frumvarpið var sett á ís árið 1914 eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út.
Páskauppreisnin
Á öðrum degi páska árið 1916 var gerð uppreisn í Dyflinni sem leidd var af sósíalistanum James Connolly. Uppreisnin var tilraun írskra lýðveldissinna til að brjótast undan breskum yfirráðum. Uppreisnarmönnunum tókst að leggja undir sig aðalpósthúsið í Dyflinni og viðhalda yfirráðum yfir borginni í heila viku. Yfirvöld í London brugðust fljótt við því að senda þungvopnaðar hersveitir til Írlands og tókst þeim eftir blóðuga baráttu næstu vikuna að bæla niður uppreisnina. Margir uppreisnarleiðtogarnir voru fangelsaðir og teknir af lífi, þar á meðal Connolly.
Vladímír Lenín var meðal þeirra sem lýstu yfir stuðningi við páskauppreisnina, sem hann leit á sem mikilvægt skref í átt að alheimsbyltingu.
Gangur sjálfstæðisstríðsins
Aftakan á leiðtogum páskauppreisnarinnar jók verulega stuðning Íra við stofnun sjálfstæðs lýðveldis á Írlandi.[4] Í kosningum á breska þingið í desember árið 1919 vann írski lýðveldisflokkurinn Sinn Féin stórsigur á Írlandi. Þann 21. janúar næsta ár lýstu þingmenn flokksins yfir stofnun síns eigin þings og írsks lýðveldis með Éamon de Valera sem forseta.[5]
Fyrst um sinn eftir að Írar lýstu yfir sjálfstæði, allt fram á sumarið 1920, var tiltölulega lítið barist. Því vonuðust sumir Írar til þess að bresk stjórnvöld myndu sætta sig við orðinn hlut en raunin varð allt önnuð. Herferð lýðveldissinna fólst í því að fá almenna borgara til liðs við sig og fá þá til að viðurkenna lýðveldisstjórnina fremur en stjórn Breta. Írski lýðveldisherinn barðist aðallega gegn konunglegu lögreglusveitunum Royal Irish Constabulary (RIC), sem litið var á sem augu og eyru bresku stjórnarinnar á Írlandi. Höfuðstöðvar lögreglunnar voru berskjaldaðar, sér í lagi þær afskekktustu, og litið var á þær sem ómetanleg vopnabúr í sjálfstæðisbaráttunni. Talið er að RIC hafi haft um 9.700 manns á sínum snærum í 1.500 vígjum víðs vegar um Írland.
Á meðan á stríðinu stóð sendi David Lloyd George, forsætisráðherra Bretlands, sérstakar lögreglusveitir sem kallaðar voru black and tans til Írlands. Black and tan-sveitirnar urðu alræmdar fyrir ofbeldi gegn írskum borgurum og gerðust meðal annars sekar um aftökur án dóms og laga og um að kveikja í byggingum. Írskir lýðveldissinnar svöruðu ofbeldi black and tan-sveitanna með því að senda útsendara sína til Bretlands og gera árásir á breska herforingja og stjórnmálamenn. Það vakti heimsathygli þegar Terence MacSwiney, borgarstjóri Cork, fór í hungurverkfall til að mótmæla aðgerðum black and tan-sveitanna og svalt til dauða í fangelsi breskra stjórnvalda. Dauði hans átti þátt í að snúa áliti alþjóðasamfélagsins, sér í lagi almenningsáliti í Bandaríkjunum, gegn Bretlandi.[5]
Ensk-írski sáttmálinn
Niðurstaða stríðsins var sú að samið var um ensk-írska sáttmálann, þar sem Bretar viðurkenndu að mestu sjálfstæði Írlands, en þó með ýmsum verulegum fyrirvörum. Í stað þess að vera viðurkennt sem sjálfstætt lýðveldi viðurkenndu Bretar stofnun írsks fríríkis sem skyldi sjálft fara með eigin stjórn en vera áfram í konungssambandi við Bretakonung. Þingmenn, dómarar og embættismenn þess yrðu því áfram að sverja bresku krúnunni hollustueið.
Umdeildasti hluti sáttmálans fólst í því að sex héruðum í norðurhluta landsins var áskilinn réttur til að ákveða hvort þau yrðu hluti af írska fríríkinu eða yrðu áfram hluti af breska konungdæminu. Þessi héruð í norðurhluta landsins voru aðallega byggð mótmælendum sem höfðu flust til Írlands frá Skotlandi og Englandi í gegnum aldirnar og því viðbúið að Norður-Írland yrði klofið frá fríríkinu, sem var aðallega byggt kaþólikkum af keltneskum uppruna. Margir írskir lýðveldissinnar litu á skilmála sáttmálans sem svikráð gegn írsku sjálfstæðisbaráttunni sem ætlað væri að sundra Írlandi. Deilurnar um sáttmálann leiddu til þess að írska borgarastyrjöldin braust út nánast um leið og sjálfstæðisstríðinu lauk.
Tilvísanir
- ↑ Hopkinson, Michael (2002), The Irish War of Independence, Gill & Macmillan, bls. 201-202
- ↑ Hopkinson, Irish War of Independence, bls. 201–202.
- ↑ Hopkinson bls. 39–40.
- ↑ „Sinn Féin 100 years of unbroken continuity 1905-2005“. 26. júlí 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2007. „The executions of the 1916 leaders quickly swung public support behind the ideals and objectives of those who had participated in and led "the Rising" ending British rule and the establishment of a free and independent Irish Republic“
- ↑ 5,0 5,1 „Frelsisbarátta Írlendinga“. Þjóðviljinn. 1. september 1945.